Viðtal sem var birt laugardaginn 6. september á mbl.is:

Bjarki Jóhannesson stjórnendaþjálfari og eigandi Bravó segir að svokölluð „helgun“ starfsmanna sé stórt vandamál í atvinnulífinu. „Rannsóknir Gallup sýna að hér á landi eru aðeins 24% starfsmanna helgaðir í sínu starfi,“ segir Bjarki í samtali við Morgunblaðið. „Í Evrópu er meðaltalið 13% og Bandaríkjunum 32%“

Helgun segir fyrir um hversu spenntir starfsmenn eru fyrir vinnu sinni, hversu vel þeir tengjast henni og hversu vel þeir finni ánægju og tilgang.  „Hugsaðu ávinninginn af því að auka helgun starfsmanna í fyrirtækinu og fá alla til að róa skipulega í sömu átt!“

Vinna Bjarka felst í að hjálpa stjórnendahópum innan fyrirtækja að setja sér stefnu  og byggja upp umgjörð þar sem allir innan fyrirtækisins vinna skipulega að settum markmiðumásamt því að byggja upp ábyrga og heilbrigða fyrirtækjamenningu, eins og Bjarki lýsir því.

Meðal viðskiptavina eru sem dæmi Brim, Skeljungur, Rotovia, DK hugbúnaður, Ístak, SÁÁ, Grundarheimilin, Hvíta húsið, A4, og Reykjavík Napólí (Flatey Pizza/Neó/Gaeta). 

„Reynslan sýnir að þau fyrirtæki sem byrja að nota aðferðafræðina  eru ólíkleg til að hætta því. Nánast öll fyrirtæki sem ég hef leitt inn í aðferðafræðina eru þar enn, því þetta hefur virkað vel fyrir þau.“ segir Bjarki spurður að því hvernig hann mæli árangur.

Bjarki fékk hugmyndina að fyrirtækinu þegar hann var í  framkvæmdastjórn tölvukerfisfyrirtækisins Premis.   „Þar fór ég að skoða hvernig bestu fyrirtækin í okkar bransa erlendis hefðu vaxið. Þar bar allt að sama brunni. Entrepreneurial Operating System, skammstafað EOS, var svarið. Ég féll fyrir því og byrjaði að innleiða EOS í Premis. Þannig byrjaði þetta.

Núna tvinna ég þessari aðferðafræði saman við hugmyndir Patrick Lencioni sem margir þekkja og BOS hugbúnað frá Ninety undir merki Bravó.  Á íslensku vil ég kalla þetta „Rekstrarumgjörð“ þar sem við erum að skapa umgjörð utan um markmiðasetningu og árangursríka framkvæmd með fundarskipulagi, mælikvörðum, forgangsröðun verkefna, eflingu teyma og mótun fyrirtækjamenningar.

Bjarki fór á sínum tíma í gegnum þjálfun hjá EOS. „Árið 2022 hætti ég hjá Premis og stofnaði Bravó.“

Starf Bjarka felst í að fara inn í fyrirtækin og innleiða Bravó aðferðafræðina með stjórnendum og starfsmönnum. Þegar því er lokið mætir hann á þriggja mánaða fresti til að hnykkja á markmiðunum og tryggja að fyrirtækið sé að fylgja þeirri áætlun sem innleidd var. „Við förum yfir markmiðin og árangur síðasta ársfjórðungs, og stillum svo upp áhersluverkefnum fyrir þann næsta. Ég læri vel inn á viðskiptavinina í þessu ferli og er orðinn mjög náinn mínum viðskiptavinnum. Allt snýst þetta um að fá fólk til að stefna í sömu átt og vera meðvitað um hvað þarf að gera til að ná árangri.“

Bjarki segir að mælingar sýni að aðeins 20-30% fyrirtækja nái að framkvæma þá stefnu sem þau búa til.

Það mætti því ætla að verkefni fyrir fyrirtæki eins og Bravó séu ærin í atvinnulífinu. „Margir fara í mikla stefnumótun og setja sér flott markmið en alltof oft breytist ekkert þegar á hólminn er komið, því miður,“ segir Bjarki. „Stemmningin dofnar, félögin missa taktinn og lenda aftur í gamla farinu.“

Aðspurður segir Bjarki að minnsta fyrirtækið sem hann aðstoðar sé með fimm starfsmenn. Hið stærsta telur á annað þúsund manns.

„Þegar þú ert kominn með eitthvað umleikis í rekstri er ráð að fara að huga að verkfærum eins og Bravó.“

Spurður að því hve vel honum gangi að selja vöruna segir Bjarki að allsstaðar þar sem hann fær fund og kemst í samtal séu menn hrifnir og áhugasamir. „En það getur verið erfitt fyrir fyrirtækin að taka ákvörðun um fyrsta skrefið. Þarna er auðvitað verið að ráðast í breytingar á vinnulagi stjórnenda.“

Með í pakkanum fylgir hugbúnaður sem heldur utan um innleiðinguna og eftirfylgnina. „Þar sköpum við þess umgjörð utan um markmiðin, forgangverkefnin, og skorkortin og fleira, auk þess sem vikulegir fundir eru haldnir í gegnum kerfið.“

Á heimasíðu Bravó má lesa umsagnir viðskiptavina. Þar segir Þórður Guðjónsson forstjóri Skeljungs meðal annars að ákvörðunin að vinna með Bjarka hafi reynst heilladrjúg. „Skýr stefna og markmið sem markvisst er unnið að í öllum teymum fyrirtækisins hefur skilað okkur miklum árangri. Tekist hefur að dreifa ábyrgð og valdefla starfsfólk til árangurs og nánast allir í fyrirtækinu eru virkir í aðferðafræðinni,“ segir Þórður meðal annars á heimasíðunni.